Samstarf Tóneyjar og grunnskóla
Frá Tóney eru þróuð námskeið sem fara fram í grunnskólum í samstarfi við skólastjórnendur og kennara grunnskólanna. Þetta eru námskeið sem koma beint inn í tónmenntakennslu hvers skóla, sjálfstæðar einingar tvinnaðar inn í stundatöflu skóla og unnar af fagfólki í tónlist. Námskrá grunnskóla er höfð til hliðsjónar.
Hver leiðbeinandi setur sinn ramma og eru markmiðin mismunandi; "Skapandi tónlistarnám" þar sem þátttakendur nálgast tónlistina fyrst og fremst í gegnum sköpun sinna eigin tónsmíða, tónlist og myndlist, taktur og tónlist, söngur og leikur og margt fleira. Hvert námskeið spannar nokkrar vikur og lýkur yfirleitt með tónleikum og/eða hljóðriti á geisladiski.
Leiðbeinendur Tóneyjar vinna alla jafna í nokkrum skólum í einu en kennarar fara á milli skólanna með sín einstöku námskeið. Þannig fær sérþekking fagfólks notið sín og auðgar það starf sem fyrir er, í nánu samstarfi við hvern skóla og þarfir hans. Áhersla skal lögð á að hér er um þróunarverkefni að ræða og því opið fyrir allri umræðu.
Leiðbeinendur eru færustu hljóðfæraleikarar, sérmenntaðir tónmenntakennarar og fólk með mikla reynslu af tónlistarstarfi með börnum. Ábyrgðamaður verkefnisins er Guðni Franzson en hann, eins og margir aðrir kennaranna er með opinber grunnskólakennararéttindi.
Tóney sér nú m.a. um tónmenntakennslu fyrir Sæmundarskóla, Fellaskóla og Hagaskóla auk þess að hafa komið að kennslu í Langholtsskóla, Korpuskóla, Norðlingaskóla, Tjarnarskóla og víðar.
Fyrir utan tónmenntakennsluna hefur Tóney boðið upp á hljóðfæranámskeið í nokkrum grunnskólum, t.d. Sæmundarskóla, Barnaskóla Hjallastefnunnar og fl. skólum. Þarna er um 12 vikna námskeið að ræða þar sem kennt er í litlum hópum, 3 - 6 í hópi, grunnatriði í rytmiskum hljóðfæraleik og forskólanámskeið. Þessi námskeið eru styrkhæf frá Frístundakorti Reykjavíkurborgar.
Leiðbeinendur Tóneyjar hafa enn fremur komið að útfærslu "Músíkalsks pars" í Fellaskóla en þar er um samstarfsverkefni Tónlistarskóla Fíh og Fellaskóla að ræða. Þegar verkefnið hófst voru 2 - 3 nemendur að læra á hljóðfæri í skólanum en nú taka á þriðja hundrað nemendur Fellaskóla þátt í tónlistarþjálfun á einn eða annan hátt.